Árið 1968 voru Minjasafn Reykjavíkur og Árbæjarsafn sameinuð undir nafni hins síðarnefnda. Þá var einnig samþykkt í borgarstjórn að koma á fót embætti borgarminjavarðar og var fyrst ráðið í það starf 1974. Fyrsti borgarminjavörðurinn var Nanna Hermansson (1974-1984), síðan tók Ragnheiður Þórarinsdóttir (1984-1989) við, þriðja í röðinni var Margrét Hallgrímsdóttir (1989-2000) og þá Guðný Gerður Gunnarsdóttir (2000-2014). Í maí árið 2006 opnaði Landnámssýningin í Aðalstræti 16. Þungamiðja sýningarinnar er skálarúst frá 10. öld, sem fannst þegar grafið var fyrir nýju húsi á horni Aðalstrætis og Túngötu.
Þegar Árbæjarsafn var stofnað, 1957, var það spölkorn fyrir utan byggðina í Reykjavík. Síðan hefur borgin stækkað umtalsvert og nær nú langt út fyrir safnið. En þrátt fyrir bæði Höfðabakkabraut í austri og íbúðabyggð í norðri er landrými ennþá allnokkuð. Einnig nýtur safnið góðs af nálægðinni við Elliðaárdalinn, það gróskusama og víðáttumikla útivistarsvæði. Raunar er aðdáunarvert hve framsýnir frumkvöðlar Árbæjarsafns hafa reynst í flestu tilliti. Þróunarmöguleikar safnsins virðast óþrjótandi um langa framtíð

Hænsnakofi
Stærð hússins fer eftir því hversu margir fuglar eiga að vera í því. Þumalputtareglan er sú að miða við 4 - 5 fugla á hvern fermetra og er átt við gólfflötinn í húsinu, þannig að ef fólk ætlar að hafa 10 fugla,þarf a.m.k. 2 fermetra, 20 fuglar þurfa a.m.k. 4 fermetra o.s.frv.Betra er samt að miða við lærri töluna og hafa plássið frekar rúmt en þröngt. Of þröngt hús eykur á áreitni og vandamál og það getur of stórt hús gert líka. Húsið þarf að vera hlýtt, halda vatni og vera laust við trekk.

Árbær
Bæjarhúsin að Árbæ eru einu hús safnsins sem eru á sínum upprunalega stað. Ekki er hægt að segja til um aldur torfbæjarhlutans, en yngri viðbyggingar eru frá tímabilinu 1891 til um 1920. Hluti bæjarhúsanna eru hlaðin úr torf og grjóti en yngri hluti þeirra eru úr timbri. Þetta er summary texti

Bílaverkstæði
Verkstæðið er samstarfsverkefni Árbæjarsafns, Bíliðnafélagsins og Félags blikksmiða og er eftirlíking af verkstæði sem stofnað var í Reykjavík árið 1918. Sýningunni er skipt í þrjá hluta: bílaviðgerðir, bílasmíði og bílamálun. Munir á verkstæðinu eru nær allir frá Reykjavík og nágrenni og eru þeir elstu frá árinu 1913, þ.e. upphafi eiginlegrar bílaaldar á Íslandi, en þeir yngstu frá því um og eftir 1950. Sýningin var sett upp árið 2000.

Dillonshús
Dillonshús var reist árið 1835 á horni Túngötu og Suðurgötu. Það er timburhús af dansk-íslenskri gerð. Húsið dregur nafn sitt af Arthur E. D. Dillon sem lét reisa það. Hann var ungur maður af ensk-írskum aðalsættum sem dvaldi hér árið 1834.

Hábær
Steinbærinn Hábær stóð upphaflega á mótum Grettisgötu og Klapparstígs. Þar byggði Jón Vigfússon tómthúsmaður bæ árið 1867, sem var rifinn og endurbyggður árið 1887. Hábær er, ásamt Nýlendu, fulltrúi steinbæja í húsasafninu.

Efstibær
Efstibær var reistur árið 1883 á lóð sem síðar varð Spítalastígur 4a. Húsið er bindingsverkshús og er grjóti hlaðið í timburgrindina. Eiríkur Magnússon tómthúsmaður reisti húsið og gaf því nafnið Efstibær, enda var það í þá tíð efsta og austasta húsið í Þingholtunum. Í Efstabæ bjuggu oftast tómthúsmenn, sjómenn og verkamenn og fjölskyldur þeirra. Húsið var flutt á safnið árið 1967.

Kirkjan
Kirkjan var vígð árið 1961. Viðir hennar komu úr gömlu baðstofunni á Silfrastöðum í Skagafirði, en þeir höfðu áður verið hluti af kirkjunni á sama stað. Sú kirkja var reist 1842 og var með síðustu torfkirkjum reist á Íslandi.

Væringjaskálinn
Skátaskálinn var reistur í Lækjarbotnum árið 1920 af skátafélaginu Væringjum og var fyrsti skáli sem reistur var á Íslandi til útivistar. Gekk hann framan af undir nafninu Væringjaskálinn en síðar Lækjarbotnaskálinn.

Hafnarsmiðja
Hafnarsmiðjan var reist árið 2019 sem sérstakt sýningarhúsnæði fyrir tvö atvinnutæki sem settu sterkan svip á þróun Reykjavíkur á 20. öld. Annars vegar þýsku eimreiðina Pionér sem var flutt til landsins 1913 vegna hafnargerðarinnar í Reykjavík, önnur tveggja eimreiða sem flutt voru til Íslands. Hins vegar gufuvaltarann Bríet, sem svo var nefnd eftir Bríet Bjarnhéðinsdóttur, bæjarfulltrúa í Reykjavík. Bríet var ein stuðningsmanna tillögu Knúts Zimsen um að kaupa valtarann og hlaut hann þessa nafngift bæjarbúa.

Kjöthús
Kjöthúsið er annað tveggja pakkhúsa verslunarfélagsins Ørum & Wulff sem stóðu upphaflega á Vopnafirði, reist um 1820. Kjöthúsið dregur nafn sitt af því að þar voru geymdir kjötskrokkar til útflutnings en einnig ull og því gekk það líka stundum undir heitinu Ullarhúsið. Þegar til stóð að rífa húsin árið 1975 ákvað Þjóðminjasafn Íslands að taka þau niður og flytja til Reykjavíkur, og voru þau endurreist á Árbæjarsafni. Þjóðminjasafnið gaf safninu húsin árið 1992 í tilefni 25 ára afmælis safnsins.

Kornhús
Kornhúsið er annað tveggja pakkhúsa verslunarfélagsins Ørum & Wulff sem stóðu upphaflega á Vopnafirði, reist um 1820.

Gullborinn
Gullborinn var keyptur frá Þýskalandi árið 1922 í þeim tilgangi að bora eftir gulli í. Borinn er af gerð haglabora og þótti mjög kraftmikill á sinni tíð. Hann var gefinn upp fyrir borun niður á 150 metra dýpi, en fór allt niður í 250 metra með upphaflegri borkrónu og 700 metra síðar með annarri gerð af krónu.

Ívarssel
Húsið Ívarssel stóð áður við Vesturgötu 66b. Það er reist árið 1869 af Ívari Jónatanssyni útgerðarbónda og kennt við hann. Ívarssel var einn svo nefndra Selsbæja sem voru tómthúsbýli byggð í landi Sels á 19. öld.

Hjallur
Hjallurinn stóð áður á lóð grasbýlisins Kvöldroða við Fálkagötu 5 á Grímsstaðaholti, sem nú er hluti Hagahverfisins. Slíkir hjallar voru algengir í Reykjavík á fyrri hluta 20. aldar, en í þeim var fiskur hengdur upp og þurrkaður. Hjallurinn var fluttur á safnið árið 1965.

Miðhús
Miðhús voru byggð árið 1897 af Jóhannesi Benediktssyni sjómanni og stóðu við Lindargötu 43a. Þar hafði áður verið torfbær með sama nafni. Á jarðhæð hússins eru þrjár stofur, eldhús og inngönguskúr og á efri hæð eru einnig þrjár stofur og eldhús.

Nýlenda
Nýlenda var reist 1883. Áður hafði þar staðið torfbær sem bar sama heiti og var gatan, Nýlendugata, kennd við það hús. Árið 1907 var búið að gera endurbætur á húsinu og byggja við það inngönguskúr.

Hansenshús
Hansenshús er talið hafa verið reist árið 1823 og stóð við þá götu sem síðar varð Pósthússtræti 15. Það er kennt við Símon Hansen, dansk-íslenskan kaupmann, sem bjó þar til dánardags 1847.

Þingholtsstræti 9
Húsið var reist árið 1846 við Þingholtsstræti 9 af Helga Jónssyni snikkara (trésmiði). Húsið er einlyft timburhús með háu þaki. Það mun hafa verið smíðað úr timbri sem gekk af við byggingu Menntaskólans í Reykjavík (1846) en Helgi var yfirsmiður við byggingu skólans.

Kleppur
Prófessorshúsið var áður hluti Kleppsspítala sem var reistur árið 1907. Upprunalegi spítalinn var timburhús en Prófessorshúsið var reist sem íbúðarhús fyrir yfirlækninn og annað starfsfólk spítalans, s.s. hjúkrunarkonu, ráðskonu, ráðsmann og fleiri. Prófessorshúsið var flutt á Árbæjarsafn árið 1978 og hýsir nú skrifstofur safnsins.

Landakot - ÍR húsið
Árið 1897 reisti kaþólski söfnuðurinn kirkju á Landakotstúni, þá fyrstu frá siðaskiptum. Kirkjan var helguð hinu heilaga hjarta Jesú. Kirkjan er dæmi um tilsniðin hús sem flutt voru frá Noregi á 19. og 20. öld.

Laufásvegur 31
Húsið sem áður stóð við Laufásveg 31 var reist 1902. Það er timburhús, klætt bárujárni, og tilheyrir kynslóð Sveitser-húsa sem voru flutt tilsniðinn frá Noregi á síðari hluta 19. og fyrri hluta 20. aldar.

Miðasala - Laugavegur 62
Húsið stóð áður við Laugaveg nr. 62. Það var reist af Gísla Þorkelssyni steinsmið árið 1901 og var framan af íbúðarhús, en á 20. öld varð Laugavegur ein helsta verslunargata Reykjavíkur og árið 1923 hóf Nýlenduvöruverslun starfsemi í kjallara hússins.

Líkn - Kirkjustræti 12
Húsið við Kirkjustræti 12 gekk jafnan undir heitinu Líkn á 20. öld. Það var reist 1848 og var þá annað húsið til að standa við þá götu, á eftir Dómkirkjunni.

Lækjargata 4
Húsið Lækjargata 4 var reist við lækinn í miðbæ Reykjavíkur árið 1852 af þýskum manni, Georg Ahrenz timburmanni, sem hafði komið til Íslands árið 1847 til að vinna við byggingu Dómkirkjunnar og ílengdist á Íslandi.

Suðurgata 7
Húsið stóð áður við Suðurgötu 7 í Reykjavík var upphaflega reist árið 1833 af Teiti Finnbogasyni, sem var þá járnsmiður í Reykjavík.