Skip to main content

Árbær

Staðsetning á korti
Númer verks (á korti)
11
X hnit
1611
Y hnit
780
Image
Árbærinn
Árbærinn

Bæjarhúsin að Árbæ eru einu hús safnsins sem eru á sínum upprunalega stað. Hluti bæjarhúsanna er hlaðinn úr torfi og grjóti en yngri hluti þeirra er úr timbri. Búseta að Árbæ lagðist af árið 1948, þegar síðasti ábúandinn flutti í burtu. Nýlegar fornleifarannsóknir gefa vísbendingu um að búseta, annað hvort föst eða tímabundin, hafi verið á þessum stað síðan á 10. öld. Lengst af voru ábúendur leiguliðar, eins og svo algengt var á Íslandi. Árbær var lengi í alfaraleið, en þjóðleiðin til Reykjavíkur lá um traðir bæjarins um aldir. Um 1881 hófst veitingasala á þessum stað og oft var mjög gestkvæmt á bænum. Fyrst og fremst voru þó ábúendur bændur og stunduðu hefðbundna kvikfjárrækt.

 

Þegar gengið er um bæjarhúsin má kynnast innviðum torfhússins af eigin raun. Við byrjum ferðalag okkar í syðstu burstinni, sem er klædd torfi og grjóti. Þetta er skemman þar sem  var inngangur í bæjarhúsin. Áður var þar einnig búr, en með viðbyggingu árið 1911, leysti annað búr það af hólmi. Á veggjum hanga verkfæri liðinna alda, hnakkar, tögl og hagldir og annað það sem bændur á Íslandi þurftu að hafa til handargangs. Það er lágt til lofts í skemmunni, en forðum var svefnloft yfir stærstum hluta hennar. Nýtt vinnumannasvefnloft leysti þetta af hólmi og var það notað sem geymslurými eftir það. Við höldum leið okkar inn um dyr á þilinu, og erum þá stödd í hlóðaeldhúsinu. Þegar síðustu ábúendur komu að Árbæ árið 1881 var þetta eina eldunaraðstaðan. Nýtt maskínuhús var reist 1891 en gömlu hlóðirnar höfðu þá áfram tilgang, einkum við að reykja kjötmeti til vetrarins. Hlóðirnar fengu því að standa áfram og eru einstakar heimildir um eldamennsku í gömlu torfbæjunum um aldir. Út úr hlóðaeldhúsinu er ranghali sem endar í fjósinu. Víða sunnanlands var þetta venja, að hafa innangengt í fjósið úr bæjargöngunum. Fyrst og fremst mátti með þessum hætti nýta ylinn sem kýrnar gáfu frá sér yfir vetrarmánuðina þegar þær voru hafðar á bás.

Við snúum nú við og höldum aftur í skemmuna. Áður var innangengt úr henni í baðstofuna sem var einnig klædd torfi og grjóti. Sú baðstofa var rifin 1891 og nýtt og nýtískulegra hús reis í þess stað. Eftir Suðurlandsjarðskjálftann 1896 fóru Íslendingar í auknum mæli að reisa timburhús til sveita. Hið nýja hús var portbyggt sem kallað var, þ.e. á efri hæð var lóðréttur veggur í um 50 - 100 cm hæð en þá tók við bratt þakið. Baðstofan var því á lofti sem sagt var, og gengið upp brattan stiga. Með fram veggjum voru sex rúm, sem voru laus ólíkt því sem áður tíðkaðist. Þar sem einangrun var minni í hinum nýju timburbaðstofum var lítil kamína eða ofn í einu horninu, sem er nú reyndar horfin. Undir baðstofunni var rými fyrir stofu. Um þetta leyti stóðu ábúendur fyrir greiðasölu og var gestum og gangandi boðið til sætis í nýju stofunni. Fyrir aftan var minna rými, kallað kames, og þar snæddi heimilisfólkið sínar máltíðir. Liðin var sú tíð að fólk mataðist úr öskum í baðstofunni.

Um svipað leyti var lítill skúr reistur norðan við nýbygginguna. Þar var komið fyrir maskínu, þ.e. kolaeldavélinni, sem var keypt frá Noregi og prýðir Árbæinn enn þann dag í dag. Skúrinn varð svo að sjálfstæðri burst árið 1911 þegar húsið var stækkað. Sem fyrr var loft yfir sem hýsti vinnumenn á sumrum og því kallað piltaloft. Athygli vekur að strompurinn úr eldavélinni liggur í gegnum gólfið og nýttist því til að hita upp loftið. Fyrir framan eldhúsið var gerð ný stofa, eflaust til að mæta auknum straumi ferðamanna sem áttu leið þar um. Sú stofa er því oft kölluð litla stofa, en sú eldri stóra stofa til aðgreiningar. Á veggnum má sjá ljósmyndir af vinafólki hjónanna í Árbæ, Steingrími Thorsteinsson og konu hans Birgittu, en þau voru þjóðþekkt á síðari hluta 19. aldar; Steingrímur frægt skáld og rektor Menntaskólans. Inn af eldhúsinu er svo búr, þar sem virða má fyrir sér ólíkar kynslóðir áhalda sem notuð voru við eldamennsku hér forðum. Við gluggann standa á borði fulltrúar nýrrar kynslóðar sem hafa leyst af hólmi þá eldri sem stendur á hillu á vinstri hönd.

Yngst og nyrst í bæjarröðinni er svo hesthúsið, sem var yfirleitt kallað ferðamannahesthúsið, enda var hlutverk þess aðallega að hýsa hesta ferðamanna sem áttu leið um gamla Suðurlandsveginn. Magni vinnumaður, Magnús Hansson, fékk þar þjórfé fyrir að sinna hestum ferðamanna, og segir sagan að hann hafi lánað Margréti húsmóður sinni fyrir byggingu þess.

Síðustu ábúendurnir

Árið 1881 fluttu hjónin Eyleifur Einarsson og Margrét Pétursdóttur að Árbæ, ásamt þremur dætrum. Þau voru síðasta fjölskyldan sem bjó þar, en dóttir þeirra Kristjana flutti í burtu árið 1948. Eyleifur og Margrét hófu búskap á Egilsstaðakoti í Flóa skömmu áður en þau fluttust að Árbæ. Dætur þeirra hjóna voru Kristjana, Elín og Guðrún en Elín lést af slysförum 19 ára gömul.

 

Skötufossmorðin

Gömlu bæjarhúsin í Árbæ, býlinu þar sem Árbæjarsafn nú stendur, þykja fara vel þar sem þau lúra á hæðarbrún með gróin þök og þunglamalega, hæfilega skakka grjótveggi. Þegar gestir líta þau augum á björtum sumardegi dettur víst fáum í hug að þar hafi ríkt annað en friðsæld og kærleikur í aldanna rás, kannski í bland við örlítil vanefni á köflum. Fólska og illvirki virðast víðs fjarri. Samt sem áður komst bærinn í annála fyrir mannvíg sem þar var bruggað, ástríðumorð, og þótti einhver óhugnanlegasti atburður þess tíma. Áður en vikið er að morðinu sjálfu verður farið nokkrum orðum um baksviðið.

Líklegt er að búskapur hafi byrjað í Elliðaárdal fljótlega eftir landnám, bæði vegna gróðursældar og hlunnindanna sem fólust í laxveiðinni. Árbær er þó ekki nefndur í heimildum fyrr en á 15. öld og var þá hjáleiga í eigu Viðeyjarklausturs. Hafði hann líkast til verið færður klaustrinu gefandanum til sáluhjálpar. Konungsjörð varð bærinn síðan við siðaskiptin, 1550. Fyrstu glöggu myndina af Árbæ og búendum hans er að finna í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1704. Vill svo til að þá bjó þar hið ógæfusama fólk, sem kom við sögu fyrrgreinds mannvígs. Lýsing á Árbæ og kvöðum sem honum fylgdu ber ekki með sér að hann hafi verið eftirsóknarverður til búsetu. Meðal annars segir orðrétt í jarðabókinni: "Tún meinlega grýtt og þýfð. Engi mjög lítið . . . Torfskurður til húsagjörðar nægur, en til eldiviðar tekur hann mjög að þverra." Samt sem áður var tvíbýli í Árbæ. Annar ábúandinn hafði þrjár kýr, kvígu og tvo hesta. Hinn ábúandinn hafði einnig þrjár kýr, naut, kálf og einn hest. Hvorugur þeirra hafði sauðfé. Af bæjarhúsum eru lýsingar litlar, en þó ljóst að húsin sem nú eru í Árbæ eru líkust höll miðað við það sem þá var.

Álögur á búendur voru þungar þrátt fyrir að ekki virtist af miklu að taka. Kaþólska kirkjan hafði þótt óvægin í skattpíningu á leiguliðum sínum, en verri reyndust þó konungsmenn á Bessastöðum. Landskuld, þ.e. leiga af jörðinni sjálfri, var greidd með fé á fæti eða fiski. Af bústofninum, sem einnig var konungseign, greiddist leiga í smjöri. Ofan á þetta bættust umtalsverðar vinnukvaðir: Við sjóróðra frá Örfirisey, veiðar í Elliðaánum, heyskap í Viðey, mótekju, hrístekju og fleira. Einnig bar landsetum að lána hross til ýmissa verka. Konungur hafði slegið eign sinni á laxveiði í Elliðaánum og lágu þung viðurlög við veiðiþjófnaði þar.

Á þesum tíma, árið 1704, bjó að hálfum Árbæ maður er Sæmundur hét, Þórarinsson, 41 árs gamall, grímsneskur að ætt. Kona hans hét Steinunn Guðmundsdóttir, 43 ára, og var Sæmundur þriðji eiginmaður hennar. Hjá þeim voru þrjú börn hennar af fyrra hjónabandi. Á móts við þau bjuggu Sigurður Arason, 26 ára gamall, ókvæntur, og móðir hans. Um fólk þetta er mjög lítið vitað annað en það sem varðar ytri hagi. Og vafalaust hafði það hugann að mestu leyti við að framfleyta sér frá degi til dags. Þó er ljóst að sterkar tilfinningar leyndust undir yfirborðinu, því að kærleikar miklir urðu með þeim Sigurði og Steinunni. Fór svo að hún eggjaði hann til að fyrirkoma bónda sínum með einhverju móti. Heimildir greina hins vegar ekki frá því hvað rak hana til slíks örþrifaráðs.

Sunnudagskvöld eitt í septembermánuði fóru þeir Sigurður og Sæmundur til veiða í Elliðaánum. Ekki verður betur séð en þeir hafi gert það í heimildarleysi, sbr. eignarhald konungs á ánni og veiðibann sem fyrr greinir. Er tvímenningarnir voru staddir við Skötufoss, neðarlega í ánum, gekk Sigurður aftan að Sæmundi, sló til hans með einhverju barefli og hratt honum fram í hylinn. Við yfirheyrslu síðar sagðist hann einungis hafa ýtt Sæmundi fram af fossinum með svonefndu dútré, sem er lítil tréfjöl, og hefur sjálfsagt með því viljað draga úr óhugnaði verknaðarins.

Daginn eftir að þetta gerðist lét Sigurður þau boð ganga til sveitunga sinna að Sæmundar væri saknað. Söfnuðust menn saman til leitar og fannst lík Sæmundar fljótlega í ánni. En hann var ekki bólginn eins og þeir er drukkna og þótti sýnt að hann hefði dáið á þurru landi. Líkið var nú grafið og leið síðan nokkur stund.

Smám saman kom upp orðrómur um að Sigurður væri annað hvort valdur að dauða Sæmundar eða byggi yfir vitneskju um afdrif hans. Var nú gengið á hann og er hótað var að grafa upp líkið gekkst hann við morðinu. Var þá einnig gengið á Steinunni og viðurkenndi hún þátttöku sína eftir nokkrar umtölur yfirvaldsins. Athyglisvert er hve auðvelt virtist að fá játningu þeirra því að hún jafngilti líflátsdómi. Játning Sigurðar rennir stoðum undir að hann hafi verið verkfæri í höndum Steinunnar og iðrast gerða sinna. Einnig ber að hafa í huga að á þessum tíma var fólk guðhrætt í orðsins fyllstu merkingu og trúði á elda vítis. Þau voru tekin af lífi í Kópavogi skömmu síðar. Sigurður var höggvinn en Steinunni drekkt. "Fengu þau bæði góða iðran og skildu vel við" segir í Vallaannál.

Ekki er ljóst hvar þau Sigurður og Steinunn voru grafin. Árið 1938 gerðist það hins vegar að vegagerðarmenn rákust á dys við Kópavog, örskammt fyrir austan Hafnarfjarðarveg, þar sem voru tvö lík. Var annað þeirra síðhært, en hitt höfuðlaust.

Remote video URL
Kvöldvaka í baðstofunni í Árbænum, sett á svið fyrir safnanótt