
Hafnarsmiðjan var reist árið 2019 sem sérstakt sýningarhúsnæði fyrir tvö atvinnutæki sem settu svip á þróun Reykjavíkur á 20. öld. Annars vegar þýsku eimreiðina Pionér sem var flutt til landsins 1913 vegna hafnargerðarinnar í Reykjavík, önnur tveggja eimreiða sem fluttar voru til Íslands. Hins vegar gufuvaltarann Bríeti, sem svo var nefnd eftir Bríeti Bjarnhéðinsdóttur, bæjarfulltrúa í Reykjavík. Bríet var ein stuðningsmanna tillögu Knúts Zimsen um að kaupa valtarann og hlaut hann þessa nafngift bæjarbúa.


Eimreiðin og gufuvaltarinn
Eimreiðin Pionér er önnur tveggja eimreiða sem fluttar voru til landsins vegna hafnargerðarinnar í Reykjavík, árin 1913-17. Sú fyrri Minør kom til landsins í mars 1913 og fóru bæjarfulltrúar og aðrir gestir í fyrstu ferðina þann 17. apríl. Um sumarið kom Pionér til landsins og voru eimreiðarnar notaðar við flutning á möl og grjóti vegna gerðar hafnargarðanna tveggja. Eimreiðarnar voru notaðar áfram næstu árin, m.a. til vöruflutninga sem og frekari stækkunar hafnarinnar. Síðast munu þær hafa verið notaðar 1928 og þá við flutninga á sementi við byggingu Landspítalans. Eimreiðarnar voru framleiddar í Þýskalandi árið 1892. Pionér fékk nýja gufuketill árið 1910 og var fyrir vikið aflmeiri en Minør.
Gufuvaltarinn Bríet var keyptur frá Englandi 1912 og var fyrstur sinnar tegundar til að flytjast til landsins. Knud Zimsen bar málið upp í bæjarstjórn og naut stuðnings Bríetar Bjarnhéðinsdóttur, sem var ein fjögrura kvenna sem unnið höfðu sæti í bæjarstjórn 1908, í fyrstu kosningunum sem konur máttu taka þátt í. Var valtarinn því uppnefndur Bríet Knútsdóttir meðal bæjarbúa, en Bríetar nafnið hefur haldist alla daga síðan.
