Skip to main content

Ívarssel

Staðsetning á korti
Númer verks (á korti)
22
X hnit
542
Y hnit
800
Image
Ívarssel
Ívarssel

Húsið Ívarssel stóð áður við Vesturgötu 66b. Það er reist árið 1869 af Ívari Jónatanssyni útgerðarbónda og kennt við hann. Ívarssel var einn svo nefndra Selsbæja sem voru tómthúsbýli byggð í landi Sels á 19. öld. Húsið var flutt á Árbæjarsafn árið 2005.

Image
Ívarssel og stakkstæði
Ívarssel um 1925, þá við Vesturgötu 66b 📷 Magnús Ólafsson
Image
Ívarssel í bakgrunni, stakkastæði í forgrunni
Ívarssel og stakkstæði um 1925 📷 Magnús Ólafsson

Húsið Ívarssel stóð áður við Vesturgötu 66b en var flutt á Árbæjarsafn árið 2005. Húsið byggði Ívar Jónatansson útgerðarbóndi. Hann fékk leyfi fyrir húsinu í desember 1869 og hefur líklega lokið við byggingu þess á árinu 1870. Ívarssel var einn af Selsbæjunum svokölluðu, sem voru tómthúsbýli sem byggðust í landi Sels á 19. öld. Um aldamótin 1900 voru Selsbæirnir fimm. Á meðan húsið stóð við Vesturgötu mun það hafa verið elsta hús í vesturbæ Reykjavíkur, vestan Garðastrætis. Húsið var brunavirt árið 1874 og samkvæmt því voru fjögur herbergi í húsinu auk eldhúss. Hluti af húsinu var notaður sem geymsluhús. Það mun hafa verið austasta herbergið, sem var í fyrstu notað sem heyhlaða. Húsið mun hafa verið rauðmálað með hvítum gluggum. Gluggarnir voru upphaflega sexrúðugluggar. Ívarssel þótti mikið hús er það var nýbyggt, þar sem öll hús í nágrenninu voru lágreistir torfbæir.

Ívar var formaður á bát sem gerði út frá Litluselsvör og hefur þótt efnaður maður því hann var jafnan kallaður Ívar ríki. Í hans tíð og Ólafar konu hans var vinnufólk í Ívarsseli. Ívar lést árið 1899 (67 ára gamall) og ekkja hans, Ólöf Bjarnadóttir, seldi eignina árið 1903 til Ditlev Thomsen, með tilheyrandi lóð. Árið eftir keyptu eignina Helga (1877-1957), dóttir þeirra Ívars og Ólafar, og maður hennar Einar Sigurðsson sjómaður og verkamaður (f. 1877). Síðan bjuggu afkomendur þeirra lengst af í húsinu, en þau áttu 8 börn (f. 1901-1920). Til er viðtal við Ólöfu (f. 1907) dóttur Helgu og Einars þar sem hún lýsir lífinu í og kringum bæinn allt frá uppvaxtarárum móður sinnar. Þar kemur fram að gríðarmiklir kálgarðar voru við húsið (þar sem Selbrekkur stóðu síðar) og stakkstæði var einnig neðan við húsið þar sem þurrkaður var fiskur fram yfir 1940. Gríðarstór stakkstæði útgerðarfélagsins Alliance voru austan við húsið.

Einar mun hafa breytt heyhlöðunni austast í húsinu í íbúðarherbergi, þegar kýr tengdamóður hans voru seldar (um 1916). Samkvæmt Ólöfu Einarsdóttur var gluggum breytt um leið og hlöðunni var breytt í íbúðarherbergi, en ekki er ljóst að hvaða leyti. Oft voru hlutar hússins leigðir út og þegar mest var bjuggu þar þrjár fjölskyldur.

Samkvæmt lýsingu Ólafar Einarsdóttur voru, í kringum 1920, þrjú herbergi á jarðhæð hússins auk eldhúss. Í norður- eða vesturenda var stofa sem oft var leigð út (kölluð Norðurstofa, vesturkamers eða stássstofa), síðan gangur og eldhús, þá borðstofa og í austur- eða suðurendanum (þar sem áður var hlaða) var kamers þar sem fjölskyldan svaf. Upp úr 1920 var eldhúsið stækkað með því að tekið var af norðurstofunni og svo gert búr þar inn af. Á loftinu voru tvö herbergi og var syðra herbergið, sem var stærra, leigt út, oftast heilum fjölskyldum, þar til Ólöf Bjarnadóttir, ekkja Ívars, flutti þangað upp þegar Einar og Helga keyptu húsið. Vatn var sótt í næstu hús á Vesturgötunni og notast við olíuljós fram undir 1920. Vatn var leitt í húsið um eða rétt eftir 1920.

Eftir 1920 breyttist umhverfi Ívarssels mikið. Áður lá stígur framhjá húsinu eða framlenging á Vesturgötu sem sveigði til norðvesturs við Litlasel og náði niður að sjó. Hlaðinn grjótgarður var meðfram stígnum. Á árunum 1920-1921 voru byggðar tvær húsalengjur á vegum Alliance á lóðum bæjarins rétt vestan Ívarssels. Kálgarðar Ívarssels og fleiri húsa voru teknir undir þessar lóðir. Þessi hús voru íbúðarhús fyrir starfsfólk fyrirtækisins og voru kölluð Selbrekkur eða Efri- og Neðri-Seljabrekka. Þegar þau voru byggð var legu Vesturgötu breytt á þessum stað og sveigjan niður með Ívarsseli tekin af þannig að gatan lá beint áfram til vesturs sunnan með Selbrekkuhúsunum. Þessi hús voru rifin á fyrri hluta 9. áratugar 20. aldar.

Á árunum eftir 1940 byggðu tvö iðnaðarfyrirtæki miklar byggingar undir starfsemi sína á lóðum norðan og austan Ívarssels. Stálsmiðjan byggði árið 1941 verksmiðjuhús á lóðinni næst norðaustan við Ívarssel. Hús þessi risu þétt upp við norðurvegg Ívarssels og þrengdu mjög að húsinu. Húsið var flutt á Árbæjarsafn árið 2005.

Image
Ívarssel við Vesturgötu 66b um 1970
Ívarssel við um 1970, þá forskalað timburhús 📷 Sveinn Þórðarson