
Efstibær var reistur árið 1883 á lóð sem síðar varð Spítalastígur 4a. Húsið er bindingsverkshús og er grjóti hlaðið í timburgrindina. Eiríkur Magnússon tómthúsmaður reisti húsið og gaf því nafnið Efstibær, enda var það í þá tíð efsta og austasta húsið í Þingholtunum. Í Efstabæ bjuggu oftast tómthúsmenn, sjómenn og verkamenn og fjölskyldur þeirra. Húsið var flutt á safnið árið 1967.


Efstibær - Spítalastígur 4a
Einhver fjölmennasta stétt Reykjavíkur á 19. öld voru tómthúsmenn. Þeir lifðu af fiskveiðum sem þeir stunduðu á opnum bátum og daglaunavinnu en áttu fáar eða engar skepnur. Einn þessara manna var Eiríkur Magnússon. Árið 1883 reisti hann íbúðarhús fyrir fjölskyldu sína á lóð sem síðar varð Spítalastígur 4A. Gaf hann því nafnið Efstibær, enda var það í þá tíð efsta og austasta húsið í Þingholtunum. Torfbær með sama heiti hafði áður staðið á lóðinni og mun nýja húsið hafa sum einkenni torfbæjarins, það er t.d. einungis með glugga á göflum.
Efstibær er timburhús , hlaðið í binding, klætt láréttum borðum. Það er portbyggt, þ.e. þakið byrjar um 60 sm frá gólfi rishæðarinnar. Við húsið er hjallur sem áður var herbergi. Þakið var líklega bárujárnsklætt upphaflega, en á því eru nú þakhellur. Undir húsinu var lágur kjallari þar sem íbúar höfðu hænsni. Kamar var skammt frá útidyrum hússins og snéru dyr hans frá húsinu.
Í Efstabæ bjuggu oftast tómthúsmanna- sjómanna- og verkamannafjölskyldur. Stundum voru tvær fjölskyldur í húsinu, ein á hvorri hæð. Á þriðja áratug 20. aldar bjuggu á neðri hæðinni hjón sem eignuðust 8 börn. Þar var um að ræða dóttur húsbyggjandans, Kristínu Eiríksdóttur, og eiginmann hennar sem var þá sjómaður. Voru þá rúm meðfram öllum veggjum í stofunni og einnig rúm sem hægt var að fella saman á miðju gólfi. Þá bjó Eiríkur gamli í herbergi þar sem hjallurinn er nú. Húsið var flutt á Árbæjarsafn 1967 og er þar sýnt sem heimili tómthúsmanns.
