Skip to main content

Kleppur

Staðsetning á korti
Númer verks (á korti)
2
X hnit
515
Y hnit
2010
Image
Kleppur
Kleppur

Kleppur - Prófessorshúsið var áður hluti Kleppsspítala sem var reistur árið 1907. Upprunalegi spítalinn var timburhús en Prófessorshúsið var reist sem íbúðarhús fyrir yfirlækninn og annað starfsfólk spítalans, s.s. hjúkrunarkonu, ráðskonu, ráðsmann og fleiri.

Prófessorshúsið var flutt á Árbæjarsafn árið 1978 og hýsir nú skrifstofur safnsins.

Image
Kleppur í uppgerð
Kleppur árið 1979, húsið þá komið á Árbæjarsafn
Image
Kleppsspítali árið 1957
Kleppsspítali árið 1957 📷 Ragnar Vignir

Prófessorshúsið á Kleppi var reist árið 1907 til íbúðar fyrir yfirlækni og annað starfsfólk fyrsta geðsjúkrahússins á Íslandi að Kleppi. Var húsið tengt spítalanum með tengibyggingu. Rögnvaldur Ólafsson, fyrsti íslenski arkitektinn, teiknaði bæði íbúðarhúsið og spítalann og voru þau reist samtímis. Í mörgum húsum Rögnvaldar má sjá sterk klassísk áhrif og á það við um Prófessorshúsið.

Fyrsti yfirlæknir Kleppsspítala og jafnframt fyrsti geðlæknir á Íslandi, Þórður Sveinsson, bjó á fyrstu hæð hússins ásamt fjölskyldu sinni á árunum 1907-1940. Skiptar skoðanir voru um geðlækningar í tíð Þórðar, bæði innan læknastéttarinnar og meðal almennings. Hann fór ekki varhluta af því en almennt þótti hann farsæll í starfi.

Kona Þórðar var dönsk, Ellen Johanne Kaaber að nafni. Faðir hennar var húsgagnaframleiðandi og komu öll húsgögn heimilisins þaðan. Læknishjónin eignuðust sjö börn sem öll ólust upp í Prófessorshúsinu. Þeirra á meðal má nefna Úlfar augnlækni, Agnar rithöfund og Gunnlaug lögfræðing.

Á annarri hæð Prófessorshússins bjó starfsfólk spítalans, m.a. yfirhjúkrunarkona, ráðskona og ráðsmaður. Á háaloftinu var m.a. herbergi sem vökukona spítalans hafði. 

Kleppur hafði verið bújörð um aldir og var svo enn í tíð Þórðar Sveinssonar. Þótti allnokkur spölur þaðan til Reykjavíkur. 

Húsið var flutt á Árbæjarsafn 1978 og er það meðal stærstu og veglegustu húsa safnsins.

Image
Kona með vaskafat á tröppunum á Kleppi
Ellen Sveinsson á tröppunum á Kleppi, um 1925