Skip to main content

Hábær

Staðsetning á korti
Númer verks (á korti)
25
X hnit
760
Y hnit
850
Image
Hábær
Hábær

Steinbærinn Hábær stóð upphaflega á mótum Grettisgötu og Klapparstígs, seinna Grettisgata 2B. Þar byggði Jón Vigfússon tómthúsmaður bæ árið 1867, sem var rifinn og endurbyggður árið 1887. Hábær er, ásamt Nýlendu, fulltrúi steinbæja í húsasafninu. Steinbæir eru að mestu sérreykvísk húsagerð, oftast með hlöðnum langveggjum og timburgöflum. Tímabil steinbæja var stutt, en flestir þeirra voru byggðir á síðustu tveimur áratugum 19. aldar, þó nokkrir hafi verið byggðir fyrr. Hábær var fluttur á safnið árið 1966.

Image
Eldhúshillan í Hábæ
Eldhúshillan í Hábæ
Image
Hábær 1965 við Klapparstíg
Hábær árið 1965, þá við Grettisgötu 2b 📷 Skarphéðinn Haraldsson

Þar sem Hábær stóð áður hafði annað hús staðið frá 1867 með sama nafni. Það hús reisti Jón Vigfússon tómthúsmaður, en svo nefndist sú stétt manna sem einkum lifði af sjósókn og annarri verkamannavinnu í bænum á 19. öld. Árið 1881 var bærinn kominn í eigu Þórðar Þórðarsonar tómthúsmanns (1847-1911). Árið 1885 voru skráðar þar til heimilis auk Þórðar, Ragnheiður Þorleifsdóttir kona hans (1850-1932) og Ólöf Halldórsdóttir vinnukona (1830-1929), en Þórður og Ragnheiður áttu einnig dótturina Ingileif. Árið 1887 reif Þórður niður bæinn og byggði upp aftur, veggina og norðurgafl eins og þeir voru áður úr grjóti, en suðurgafl úr bindingi klæddum með járni, samkvæmt brunavirðingu frá því ári. Á bænum var járnþak á skarsúð. Í honum voru tvö herbergi, þiljuð með borðum, ómáluð, og eldhús í norðurenda. Þórður bjó ásamt fjölskyldu sinni í bænum til dánardægurs 1911 og Ragnheiður ekkja hans fram yfir 1929, samkvæmt manntölum. Bærinn var þá kenndur við Þórð og kallaður "Þórðarbær". Ragnheiður ræktaði kartöflur og rófur í garðinum fyrir aftan húsið auk þess að fást við margs konar störf, s.s. að svíða svið á haustin.

Árið 1937 samþykkti bæjarráð að Skipulagssjóður skyldi kaupa húseignina Hábæ, sem taldist þá til Grettisgötu og stóð við væntanlega framlengingu Grettisgötu, vestan Klapparstígs. Bærinn var þó ekki rifinn og eftir að Skipulagssjóður keypti hann bjó þar fólk á vegum framfærslunefndar. Árið 1945 var bærinn orðinn mjög úr sér genginn, fúinn og niðurníddur og í október það ár samþykkti bæjarráð að láta rífa hann. Bærinn stóð þó áfram á lóðinni í rúm 20 ár. Árið 1966 var Hábær fluttur á Árbæjarsafn. Þar er hann, ásamt bænum Nýlendu, fulltrúi steinbæja í húsasafninu og dæmi um híbýli alþýðufólks um og eftir síðustu aldamót.

Sýningin í húsinu: Hábær 1950

Hábær er steinbær sem var reistur nálægt gatnamótum Grettisgötu og Klapparstígs árið 1887. Það voru einkum tómthúsmenn og iðnaðarmenn sem byggðu og bjuggu í slíkum bæjum.

Hábær komst í eigu félagsmálayfirvalda í Reykjavík, eða framfærslunefndar um 1937. Eftir seinna stríð var bærinn orðinn mjög niðurníddur og stóð til að rífa hann, en vegna mikils húsnæðisskorts í Reykjavík var búið í honum allt til ársins 1966. Seinustu áratugina bjó fólk á vegum framfærslunefndar í Hábæ. Þrátt fyrir vaxandi velmegun í Reykjavík á fimmta og sjötta áratugnum voru margir sem bjuggu við bág kjör og þurftu að leita á náðir nefndarinnar.

Á sýningunni Hábær 1950 er leitast við að varpa ljósi á kjör fátækrar fjölskyldu um 1950. Í bænum búa ung hjón með tvö stálpuð börn sín og ungabarn. Húsbóndinn er atvinnulaus og kona hans því aðalfyrirvinna heimilisins. Jafnhliða húsmóðurstörfunum tekur hún að sér ýmiss konar hjáverk.

Tekið skal fram að ekki er um raunverulega fjölskyldu að ræða.

Image
Hábær við Grettisgötu um 1940
Hábær við Grettisgötu um 1940 📷 Karl Christian Nielsen