
Húsið var reist árið 1846 við Þingholtsstræti 9 af Helga Jónssyni snikkara (trésmiði). Húsið er einlyft timburhús með háu þaki. Það mun hafa verið smíðað úr timbri sem gekk af við byggingu Menntaskólans í Reykjavík (1846) en Helgi var yfirsmiður við byggingu skólans. Húsið er stokkverkshús, þ.e. tréstokkum er hlaðið upp milli lóðréttra stoða. Þessi byggingaraðferð er frek á timbur og var því sjaldgæf hérlendis. Aðalhæð hússins er skipt í fjögur herbergi, auk forstofu. Tvær stofur eru sunnanmegin, eldhús og minna herbergi norðanmegin. Í eldhúsinu er opið eldstæði en tveir bíleggjaraofnar eru í stofum út frá því. Eftir að síðast íbúandi hússins lést árið 1945 var það gert að skóvinnustofu um skeið, og hýsir nú sýningu um skósmíði og gullsmíði. Húsið var flutt á Árbæjarsafn 1969.


Þingholtsstræti 9
Snikkarinn Helgi Jónsson reisti húsið árið 1846 og bjó þar ásamt fjölskyldu sinni. Synir hans, Jónas og Helgi, voru áberandi í tónlistarlífi Reykjavíkur og stofnuðu meðal annars Söngfélagið Hörpuna og Lúðurþeytarafélag Reykjavíkur.
Guðrún Daníelsdóttir kennari bjó lengst allra íbúa í húsinu, eða í hartnær sextíu ár. Hún var stjúpdóttir Kristbjargar, dóttur Helga snikkara.
Í þessu litla húsi voru einnig haldin píuböll og var þá oft glatt á hjalla. Dansleikir voru helstu skemmtanir bæjarbúa á þessum tíma.
