Skip to main content

Hansenshús

Staðsetning á korti
Númer verks (á korti)
24
X hnit
660
Y hnit
922
Image
Hansenshús
Hansenshús

Hansenshús er talið hafa verið reist árið 1823 og stóð við þá götu sem síðar varð Pósthússtræti 15. Það er kennt við Símon Hansen, dansk-íslenskan kaupmann, sem bjó þar til dánardags 1847. Þá bjó um tíma í húsinu Teitur Finnbogason sem hafði reist húsið við Suðurgötu 7, sem er eitt af safnhúsum Árbæjarsafns. Hansenshús stóð lengst af á baklóð lóðarinnar og var lítið breytt frá upprunalegu útliti þegar það var flutt á safnið 1960, fyrst flutningshúsa. Á neðri hæð eru þrjár stofur og eldhús sem hefur nýlega verið endurgert. Í risi eru þrjú herbergi. Húsið er bindingshús af þeirri gerð sem kölluð hefur verið dönsk-íslensk.

Image
Hansenshús 1960 á Árbæjarsafni
Ásgeir Ásgeirsson forseti skoðar Hansenshús á Árbæjarsafni árið 1960 📷 Pétur Thomsen
Image
Reykjavík 1907, Hansenshús
Suðurhluti kvosarinnar séð frá Lækjargötu 3 árið 1907. Við austurenda Dómkirkjunnar má sjá Hanenshús 📷 Magnús Ólafsson

Hansenshús er kennt við Símon Hansen, dansk-íslenskan kaupmann í Reykjavík. Faðir Símonar hafði verið kaupmaður í Básendakaupstað, en eftir Básendaflóðið 1799 lagðist verslun af á þeim stað. Símon fetaði í fótspor föður síns og kom upp verslun við núverandi Hafnarstræti. Þó hann hafi ekki verið í hópi stórtækustu kaupmanna bæjarins þá naut hann virðingar og sat lengi í bæjarstjórn og þar af lengi sem bæjargjaldkeri. Kona hans var Kristín Stefánsdóttir og saman eignuðust þau sex börn auk þess sem þau tóku að sér eina fósturdóttur.

Símon Hansen lést 1847 en sonur hans Henreich og kona hans Eirný Erlendsdóttur bjuggu þar áfram til 1864. Þau leigðu út herbergi í húsinu og meðal leigjanda voru þjóðþekktir menn s.s. Jón Árnason þjóðsagnasafnari og fyrsti Landsbókavörður Íslands og Sigurður Guðmundsson málari sem var fyrsti forstöðumaður Forngripasafnsins, síðar Þjóðminjasafsins.

Árið 1864 fluttu í húsið Teitur Finnbogason, eldsmiður og kona hans Guðrún Guðbrandsdóttir.  Var húsið kallað Teitshús meðan hann bjó þar. Teitur leigði einnig út herbergi í húsinu og á árunum 1868-69 bjó þar Sigfús Eymundsson ljósmyndari og bóksali. Guðrún bjó sem ekkja í húsinu til 1887.

Eftir að pósthús bæjarins var flutt í næsta hús var byrjað að kalla götuna þar sem Hansenshús stóð Póststræti og seinna Pósthússtræti. Árið 1887 var sú nafngift fest í sessi og Hansenshús varð nr. 15 við þá götu.

Næstu árin gekk húsið kaupum og sölum. Fyrir framan reis nýtt hús, Pósthússtræti 13 sem hefur verið rifið. Um aldamótin 1900 eignaðist Carl Sæmundsen húsið. Hann var stórtækur kaupmaður á sinni tíð og keypti ýmis sögufræg hús s.s. Bessastaðastofu og Ostervoldgate 12 í Kaupmannahöfn, eða Jónshús. Hann gaf íslenska ríkinu bæði húsin og Reykjavíkurbær fékk einnig Hansenshús að gjöf og var það fyrsta flutningshúsið sem var flutt í nýstofnað Árbæjarsafn árið 1960.

Image
Hansenshús 1845
Hansenshús árið 1845, til hægri á myndinni 📷 Alfred Des Cloizeaux